Uppsetning á VDV í Botswana
Stærsta demantanáma í heimi
Nýlega fékk Verkfræðistofan Vista það verkefni að setja upp hugbúnaðinn sinn (VDV) í Orapa demantanámunni í Botswana, Afríku. Orapa náman (staðsett um 550km norðan af Gaborone höfuðborg landsins) er stærsta demantanáma í heimi að flatarmáli og hóf rekstur 1971. Demantavinnsla hefur skipt Botswana gríðarlegu miklu máli sl. 4 áratugi og skila námurnar um 40% af tekjum ríkisins. Náman keypti 8x10metra háar veðurstöðvar af innlendum aðila sem vantaði hugbúnað til að birta mæligögn, sjá um viðvaranir og gefa skýrslur. Ákveðið var að senda starfsmann Vista á svæðið til að setja upp kerfið ásamt því að þjálfa starfsmenn námunnar í notkun hugbúnaðarins. Í lok nóvember flaug Andrés Andrésson út til að vinna þá vinnu.
Náman keypti 8 veðurstöðvar til að fylgjast með veðri, úrkomu og jarðvatni í kringum námuna. Rigningin getur verið mjög staðbundin svo ákveðið var að setja veðurstöðvarnar nálægt hvor annarri til að ná að mæla alla þá rigningu sem kæmi á svæðið. Með þessum mælingum er hægt að taka betri ákvarðanir með vatnsforða námunnar sem er mjög mikilvægur þar sem vatn er notað til að ná demöntum úr berginu.