Þorskafjörður – Uppsetning á aflögunarmæli
Verkfræðistofan Vista, í samstarfi við Vegagerðina, hefur lokið við að setja upp aflögunarmæli (e. Shape Acceleration Array) í vegstæði þar sem vegurinn þverar Þorskafjörð. Þverun Þorskafjarðar er hluti af vegaframkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum sem er ætlað að bæta til muna alla umferð íbúa og ferðamanna, Vestfjörðum til hagsbóta (sjá á vef Vegagerðar) .
Verkefnið
Um er að ræða fyrsta mælinn af þessu tagi frá Measurand sem settur er upp á Íslandi til að mæla jarðvegsaflögun á láréttan flöt, en aðferðin hefur verið notuð í Noregi til dæmis þar sem verið er að koma fyrir fyllingum í sjó og þvera firði. Hérna má lesa um lóðréttar uppsetningar sem hafa verið gerðar fyrir Veðurstofu Íslands fyrir ofan Seyðisfjörð og Eskifjörð. Sjálfvirkum mælingum sem þessum er ætlað að koma í staðinn fyrir sigslöngumælingar sem hafa verið gerðar handvirkt á verkstað hingað til. Sigslöngumælingarnar eru tímafrekar auk þess sem veður þarf að vera stillt og því hafa mælingar ekki verið tíðar. Með þessu móti er vonast til að hægt sé að fylgjast betur með sigi, ná fram tímasparnaði og minnka áhættu þegar verið er að fergja vegstæði. En mikilvægt er að farg sé sett á í áföngum og að undirlag fái tíma til að jafna sig milli fergingarlaga, en þá er einnig mikilvægt að fullnægjandi sig eða aflögun sé komið fram áður en vegur er fullkláraður með slitlagi.

Framkvæmd á verkstað
Aflögunarmælirinn var settur niður vestan við brúarstæðið í Þorskafirði. Suðurverk, sem fer með framkvæmd verksins, gerði rás þar sem mælinum var komið fyrir í -0,5 m.y.s, en mælirinn er 50 metra langur og hver hlekkur 1 meter á lengd. Til að verja mælinn fyrir skemmdum, og þannig að endurheimta mætti mælinn, var hann settur í 50 mm plaströr. Mælirinn mælir aflögun milli hlekkja í undirlaginu sem er undir farginu, en upplausn mælinganna (e. resolution) fyrir hvern meter upp á 0,012 mm og nákvæmnin (e. precision) er 0,09 mm per meter. Tekin er mæling á fjögurra tíma fresti sem er send í skýjalausn Vista (Vista Data Vision), en gott fjarskiptasamband er á staðnum og því auðvelt að senda gögnin með GSM módemi. Einnig voru settar niður sigplötur í og við rásina þannig að bera megi saman mælingarnar og sannreyna niðurstöður. Frágangur á verkstað á að tryggja að hægt sé að ná mælinum úr kápunni (rörinu) að verki loknu og nýta aftur á öðrum stað.


Krefjandi aðstæður
Þorskafjörður er krefjandi staður að vetri og gætir mikils muns á flóði og fjöru. Koma þurfti mælinum fyrir á fjöru og þegar fyrsta lag fyllingar var á þurru, var því knappur tími til stefnu og þurfti allt að ganga upp í fyrstu atrennu. Starfsmenn Suðurverks voru búnir að vinna góða undirbúningsvinnu sem var nauðsynleg áður en hægt væri að koma mælinum fyrir í rásinni. Ekki hefði verið hægt að koma mælinum fyrir á stórstreymi sem verður 23.janúar, en þá verður yfir 4 metra munur á flóði og fjöru.




„Vegagerðina ákvað að setja niður aflögunarmæli sem hluta af brúun Þorskafjarðar til að sjá hvort þessi mæliaðferð myndi nýtast við erfiðar íslenskar aðstæður.”
Oddur Sigurðsson Hagalín Verkefnastjóri Framkvæmdadeild
Niðurstaða
Nú þegar er mælirinn farinn að skila niðurstöðum í Vista Data Vision hugbúnðarkerfið, og verður spennandi að sjá samanburð mælinga sigplatna og aflögunarmælis.
Ef allt gengur að óskum má endurnýta mælirinn á öðrum stað í öðru verkefni, sem þá gefur betri mynd af því hvenær undirlag vegar er orðið stöðugt.

Þakkir
Við þökkum starfsmönnum Suðuverks fyrir einstaka hjálpsemi og viðmót. Var vel hugsað um okkur í Bjarkalundi með gistingu og mat. Þá er mjög ánægjulegt að vinna með fyrirtæki eins og Vegagerðinni sem er tilbúin að þróast og prófa nýja tækni til að sinna sínum verkefnum enn betur.