Aflögunarmælar – Kynning hjá Vegagerðinni

Verkfræðistofan Vista tók þátt í Rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar á dögunum. Þetta er í 22.skipti sem Vegagerðin heldur slíka ráðstefnu. Verkefnið sem við kynntum var notkun á sjálfvirkum aflögunarmæli (ShapeArray) í vegstæði við þverun Þorskafjarðar. Brúin opnaði fyrir umferð 25.október 2023, 8 mánuðum á undan áætlun.

Við gerð vega er farg sett á nokkrum sinnum til að jarðvegurinn nái að síga áður en fargið er svo tekið af aftur. Þetta tekur langan tíma og mjög mikilvægt að allt sig sé komið fram áður en sjálfur vegurinn er lagður.

Með notkun á aflögunarmælinum var hægt að sjá í rauntíma hvenær jarðvegurinn var búinn að síga nóg. Þannig var hægt að halda vel utan um tímann, bæði þannig að ekki var eytt meiri tíma en þurfti í að bíða eftir sigi og heldur ekki að bæta of fljótt ofan á fargið.

Þetta var í fyrsta skipti sem láréttur aflögunarmælir var lagður á Íslandi. Með þessari aðferð er vonast til að hægt sé að fylgjast betur með sigi, spara vinnustundir, ná fram hagkvæmni í framkvæmdinni.

 

Hér má sjá veggspjöldin

 

Hita- og kælieftirlit Vista – Lyfjaþjónusta Landspítala

Lyfjaþjónusta Landspítalans hefur tekið í noktun hita- og kælieftirlit frá Verkfræðistofunni Vista. Nú þegar sinnir Vista hita- og kælieftirliti fyrir fjölmargar deildir Landspítalans og Blóðbankans.

Lyfjaþjónustan er því nýjasti viðskiptavinur Vista þegar kemur að eftirliti með lyfja-, blóð- og sýnaskápum.

Notaðir eru hitanemar sem skrá og geyma upplýsinar um hitastig og er öllum mæligögnum safnað í raun-tíma í Vista Data Vision kerfið. Mikilvægt er að fylgjast með hitastigi á hinum ýmsu gerðum kæliskápa sem eru í rekstri á Landspítala til að tryggja öryggi lyfja og sýna. Kerfið er að fullu þráðlaust og notast við Bluetooth og/eða NB-IoT fjarskiptatæknina, næst þannig mikil hagræðing þar sem ekki þarf að leggja neinar lagnir. Enda er oft erfitt að leggja lagnir í gömlum byggingum. Skáparnir í eftirliti eru afar fjölbreyttir þar sem hitastig er frá -180°C upp í herbergishita.