Ein stærsta verkfræðistofa á sviði jarðtækni tekur upp Vista Data Vision sem sína aðallausn

VISTA gekk nýlega frá samningi við Fugro, eina stærstu verkfræðistofu heims, um notkun á hugbúnaðinum Vista Data Vision (VDV) sem VISTA hannar og selur.

Fugro er hönnunar- og verkfræðistofa með um 10.000 starfsmenn og 150 skrifstofur um allan heim. Fugro er leiðandi þegar kemur að gagnaöflun á sviði jarðvegs- og byggingaframkvæmda, bæði á landi og sjó.
Síðustu átta ár hefur Fugro notað VDV í einstök verkefni ásamt eigin hugbúnaði en nú hefur verið ákveðið að nota einungis VDV og leysa þar með af hólmi mismunandi hugbúnaðarlausnir sem var orðið kostnaðarsamt að viðhalda.

Með þessum samningi við VISTA mun Fugro því nota eina heildarlausn til þess að fylgjast mæligögnum í öllum sínum verkefnum vítt og breitt um heiminn. Til að byrja með verða 150 verkefni sett upp í VDV en munu þau svo aukast jafn og þétt.

Viðræður á milli VISTA og Fugro hafa staðið yfir í tæpt ár en nú stendur yfir vinna við innleiðingu og þjálfun fyrir starfsfólk Fugro. Öll þjálfun mun fara fram gegnum netið og starfsfólk Fugro frá APEC ríkjum, Evrópu og N- og S -Ameríku tekur þátt.

“Við erum gríðarlega stolt af þessum samningi við Fugro. Við höfum undanfarin ár unnið með mörgum stórum fyrirtækjum eins og ExxonMobil í Kanda og Vale í Brasilíu í einstökum verkefnum, en Fugro er fyrsta alþjóðlega fyrirtækið sem ákveður að innleiða VDV sem hugbúnað í öllum sínum verkefnum á heimsvísu. Þetta er stórt skref fyrir okkur og sýnir þá viðurkenningu sem VDV hefur náð á alþjóðlegum markaði.”

Þórarinn Andrésson – Framkvæmdastjóri VISTA